Seafood from Iceland
Aðilar innan sjávarútvegsins hafa snúið bökum saman um sameiginlega markaðssetningu. Það er mikil samkeppni í hinum stóra heimi og með því að standa saman verður aukinn slagkraftur í kynningunni og þar með meiri líkur að ná í gegn með sameiginleg skilaboð um íslenskan sjávarútveg. Verkefnið heitir Seafood from Iceland og eru þátttökufyrirtækin í dag um 30. Fyrirtækin eru úr ólíkum stigum virðiskeðjunnar, allt frá veiðum og vinnslu, til sölu og þjónustu við sjávarútveginn. Markmið verkefnisins er að auka vitund og styrkja viðhorf gagnvart íslenskum sjávarafurðum í því skyni að auka virði og útflutningsverðmæti. Eignarhald verkefnisins er hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) en Íslandsstofa er framkvæmdaraðili.
það er hátíð að borða fisk
Í lok ágúst hóf Seafood from Iceland sína fyrstu markaðsherferð á Bretlandseyjum. Meginskilaboðin tengjast gæðum og heilnæmi og að fiskistofnar við Ísland séu nýttir á sjálfbæran hátt. Herferðin kallast “Fishmas” og er með vísun í fisk og jól (e. Christmas) enda hátíð að neyta fisks. Í Fishmas er fólk hvatt til að borða fisk að lágmarki tvisvar sinnum í viku. Engin jól verða án jólasveinsins og það sama á við um Fishmas. Father Fishmas er ómissandi þegar kemur að því að færa heiminum ljúffengan, heilnæman fisk úr sjálfbærum stofnum við Ísland. Það var enginn annar en Egill Ólafsson sem tók að sér hlutverk Father Fishmas. Stutt og hagnýt uppskriftamyndbönd má finna á vefnum www.fishmas.com þar sem fólk getur lært að elda einfalda en gómsæta fiskrétti.
Árangur fram úr væntingum
Fishmas herferðinni sem er miðuð að samfélagsmiðlum hefur verið vel tekið í Bretlandi og þykir óhefðbundin og skemmtileg. Árangur Fishmas herferðarinnar á birtingartímabilinu fór fram úr væntingum. Father Fishmas myndbandið með Agli Ólafssyni fékk góðar viðtökur og hefur verið spilað mikið eða um sex milljón sinnum. Þá var efnt til samstarfs við breska áhrifavalda á samfélagsmiðlum sem valdir voru með hliðsjón af markhópnum. Þeir elduðu íslenskan þorsk eftir “Fishmas” uppskrift og deildu því efni sínu á samfélagsmiðlum og náði það til rúmlega fimm milljóna áhorfenda í Bretlandi.
Bacalao de Islandia verður hluti af Seafood from Iceland
Öflugt markaðstarf hefur síðan árið 2013 verið unnið á mörkuðum Spánar, Portúgal og Ítalíu undir merkjum Bacalao de Islandia, sem frá og með árinu 2020 var hluti af Seafood from Iceland. Þetta verkefni gengur út á að kynna íslenskan saltaðan þorsk, sem er betur þekktir sem bacalao/bacalhau/baccalá á þessum svæðum.