Jump to content

Vænar grænar lausnir


Á árinu 2020 var ákveðið að nota vörumerkið Green By Iceland á erlendum vettvangi til að efla útflutning íslenskra grænna lausna og sérfræðiráðgjöf á sviði endurnýjanlegrar orku. Unnið var náið með starfsfólki Grænvangs í stefnumörkun sem mun nýtast vel næstu árin. 

Það er mikilvægt að íslensk fyrirtæki, Orkuklasinn, Grænvangur og Íslandsstofa starfi þétt saman til að ná sem mestum slagkrafti og árangri í útflutningi grænna lausna. Árið hefur verið nýtt vel til að funda með fyrirtækjum sem huga að útflutningi á sviði orkumála og farið yfir helstu áherslur þeirra, markaðssvæði og sýningar í samstarfi við Alþjóðahóp Orkuklasans. 

„Samtök gagnavera (DCI) óskuðu eftir því að Íslandsstofa tæki að sér mörkunarvinnu til næstu ára fyrir gagnaversiðnaðinn.“

Ný mörkun fyrir þjónustu gagnavera

Samtök gagnavera (DCI) óskuðu eftir því að Íslandsstofa tæki að sér mörkunarvinnu til næstu ára fyrir gagnaversiðnaðinn og voru haldnar vinnustofur með fulltrúum gagnaveranna sem hafa starfsemi á Íslandi. Mörkunarvinnan gekk vel og var hún samþykkt í stjórn DCI í byrjun árs 2021. Unnið er að fjármögnun og innleiðingu í kjölfarið.  

Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt í samnorræna verkefninu Nordic City Solutions í Minneapolis í Bandaríkjunum.  

Mikilvægi sýnileika 

Íslandsstofa í samvinnu við Landsvirkjun kom Íslandi inn á þá lista sem erlend ráðgjafafyrirtæki notast við þegar þau bera saman lönd við leit sína að hagkvæmum stað fyrir gagnaver. Ef Ísland er ekki að finna á þessum samanburðarlistum þá minnka til muna líkur Íslands á að koma til greina sem möguleg staðsetning fyrirtækja sem eru að víkka út starfsemi sína. Í kjölfarið komst Ísland á nokkra mikilvæga lista og verður sýnilegri kostur í framtíðinni.

Green by Iceland

Íslandsstofa og Grænvangur kynntu vörumerkið Green by Iceland til leiks árið 2020. Hlutverk Green by Iceland er að stuðla að því að Ísland verði þekkt fyrir sjálfbæra nýtingu auðlinda og grænar lausnir. Vefur Green by Iceland fór í loftið í lok árs en þar má kynna sér sjálf­bærni­sögu Íslands, upp­lýs­ingar um fjöl­breytta end­ur­nýj­an­lega orku­þekk­ingu Íslend­inga, nýsköpun sem dregur úr los­un, hringrás­ar­hugsun í íslensku atvinnu­lífi, markmið Íslands um að ná kol­efn­is­hlut­leysi árið 2040 og leit­ar­vél fyrir íslensk fyr­ir­tæki sem flytja út grænar lausn­ir.
Nánar um Green by Iceland