Jump to content

Mynd: Alvotech

Vaxtarfyrirtækjum veitt brautgengi


Íslandsstofa fór nýjar leiðir á árinu við að koma íslenskum fyrirtækjum á sviði hugvits, nýsköpunar ogtækni á framfæri á erlendri grundu. Íslenskri líftækni var komið á framfæri við sérhæfða fjárfesta í Bandaríkjunum, haldin var viðskiptaheimsókn með Eistlandi á sviði opinberrar stjórnsýslu með fyrirtækjum á sviði heilsutækni, íslensku viðskiptaumhverfi var sérstaklega komið á framfæri við erlenda fjárfesta sem og íslenskum fjártæknifyrirtækjum. Allir viðburðir fóru fram á vefnum. Höfuðáhersla var lögð á koma íslenskum vaxtarfyrirtækjum á framfæri og veita þeim brautargengi.

Hugverkaiðnaður í sókn

Útflutningstölur fyrir árið 2020 sýna að samsetning útflutningstekna hefur breyst. Þannig hefur vægi útflutningstekna á sviði hugvits og tækni aukist úr 7% í 15% og nam 145 milljörðum króna á síðasta ári. Þar með hefur fjórða stoð útflutnings í hagkerfinu litið dagsins ljós.

Niðurstöður könnunar Íslandsstofu meðal vaxtarfyrirtækja á sviði nýsköpunar, hugvits og tækni gefa ástæðu til bjartsýnien flest fyrirtækin sjá fram á vöxt næstu 12 mánuðina.

„Vaxtarmöguleikar fyrirtækja á sviði hugvits og tækni eru margir. Þau stefna að því að fjölga störfum og sækja fjárfestingu.“

Vaxtarfyrirtæki eru þau fyrirtæki sem er nú þegar eru komin með viðskipti erlendis eða fjármögnun til þess að sækja á erlendan markað. Spurt var út í rekstrarumhverfi þeirra 2020 annars vegar og horfur næstu 12 mánaða hins vegar. Í niðurstöðunum kemur fram að þrátt fyrir COVID-19, stóðust áætlanir meirihluta svarenda, viðskiptavinum fækkaði almennt ekki og lítill samdráttur var á tekjum á milli áranna 2019 og 2020. Á sama tíma fjölgaði starfsmönnum um 14% en sá vöxtur vekur athygli því atvinnuleysi jókst töluvert á síðasta ári á íslenskum vinnumarkaði. Þegar spurt var út í horfur næstu 12 mánaða þá hyggjast nær öll fyrirtækin fjölga starfsfólki á árinu og samanlagt hyggjast fyrirtækin sækja um 24 milljarða fjárfestingu á næstu 12 mánuðum. Vaxtarmöguleikar íslenska hagkerfisins eru miklir á þessu sviði.
Sjá nánar á vef Íslandsstofu.

Vísindaþorp í Vatnsmýrinni 

Skrifað undir samning að Vísindaþorpinu

Frá undirskrift samnings að Vísindaþorpinu í Norræna húsinu.

Íslandsstofu var falið að leiða erlenda markaðssetningu á Vísindaþorpinu í Vatnsmýri. Alþjóðleg heiti verkefnisins er Reykjavík Science City. Verkefnið er liður í markaðsverkefninu um Nýsköpunarlandið Ísland sem miðar að því að gera á hugvit, nýsköpun og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga. Meðal annars verður horft til tækifæra sem tengjast líftækni og heilsutengdri tækni, auk þess sem laða á til landsins erlend fyrirtæki og sérfræðinga. Sjá nánar á vef Íslandsstofu

Dýrmæt sérfræðiþekking til Íslands

Íslensk fyrirtæki eiga í alþjóðlegri samkeppni um sérfræðiþekkingu. Oft er þörfin meiri en framboðið hér á Íslandi ræður við og því mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að geta laðað að erlent starfsfólk með dýrmæta þekkingu. Vefurinn Work in Iceland, sem er samstarfsverkefni Íslandsstofu, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, er gerður til að auka aðgengi erlendra sérfræðinga að upplýsingum um helstu kosti þess að starfa á Íslandi.

Haustið 2020 kynntu stjórnvöld breytingar á reglum sem gerðu starfsfólki erlendra fyrirtækja eða sjálfstætt starfandi kleift að búa á Íslandi í allt að 180 daga og vinna í fjarvinnu. Í ljósi hratt vaxandi fjarvinnu og starfa án staðsetningar hefur sá hópur sem stundum er nefndur „stafrænir hirðingjar“ stækkað mjög og samsetning hans breyst. Stundum er um að ræða stjórnendur eða millistjórnendur alþjóðlegra fyrirtækja sem vilja skipta um umhverfi og kanna ný og skapandi samfélög. Stjórnvöld fólu Íslandsstofu að sjá um kynningu á þessu tækifæri og var því sinnt undir merkjum Work in Iceland.

Hugbúnaðarfyrirtækjum á sviði heilbrigðistækni komið á markað í Bandaríkjunum

Mynd: Sidekick Health

Íslandsstofa ásamt Business Finland og Business Sweden stóð að verkefni sem nefnist Nordic Amplify en það miðar að því að fræða og opna viðskiptatækifæri norænna tæknifyrirtækja á sviði líf- og heilbrigðistækni inn á bandaríska heilbrigðismarkaðinn. Verkefnið var unnið í samvinnu við 3 sveitarfélög í Norður Karólínu og alls tóku fimm sjúkrasamlög þátt en innan þeirra starfa yfir 80 spítalar og sjúkrastofnanir. Þá komu einnig fimm framtakssjóðir að verkefninu. Lokamarkmið verkefnisins er að koma þjónustu á markað í samvinnu við innlenda aðila, en tækifærin eru ærin þar í landi. Lögð var áhersla á að auðvelda inngöngu inn á markaðinn með því að fræða um flókið regluverk heilbrigðisgeirans í Bandaríkjunum og greiða götu fyrirtækjanna í gegnum þungt regluverk. Curron og Sidekick Health tóku þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. 

Íslenskt hugvit í baráttunni við COVID-19 kynnt í Eistlandi

Eitt af því sem íslenskum fyrirtækjum fannst skipta mestu máli á síðasta ári var að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína á vefnum.

Mynd: Algaennovation/ Vaxa Impact Nutrition
Dæmi um slíkt tækifæri var viðburður sem helgaður var stafrænni stjórnsýslu (e-governance) og haldinn var í samvinnu við utanríkisráðuneyti Íslands og Eistlands. Fimm íslensk hugbúnaðarfyrirtæki kynntu starfsemi sína sem öll hafa lagt sitt af mörkum í baráttunni við COVID-19 og verið opinberri stjórnsýslu innan handar. Þetta eru fyrirtækin eru Kara Connect, Taktikal, Curron, Pay Analytics, Flow VR og Proency. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og framsögumaður frá Íslandi var Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Stafrænu Íslandi.

Öflugar konur áberandi á árinu

Íslensk fyrirtæki tóku þátt í ýmsum viðburðum á vegum Nordic Innovation House. Helst má nefna þátttöku íslenskra kvenna í fyrirlestraröðinni Nordic Women in Tech and Innovation. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og forstjóri Kara Connect og Jenný Ruth Hrafnsdóttir, stofnandi Crowberry Capital fluttu framsögur og tóku þátt í umræðum fyrir Íslands hönd.

Þá stóð Nordic Innovation House einnig fyrir áhugaverður tengslaverkefni fyrir kvenstofnendur tæknifyrirtækja í verkefninu NWTI Connect.

Lítil þjóð með háleitar hugmyndir

Á haustmánuðum stóð Íslandsstofa að viðburði í samvinnu við ræðismannsskrifstofu Íslands í New York sem miðaði að því að kynna íslensk líftæknifyrirtæki fyrir bandarískum fagfjárfestum.

Fimm íslensk fyrirtæki kynntu lausnir sínar og starfsemi; Epiendo, Mentis Cura, Oculis, 3Z, Saga Natura.  Á dagskrá voru einnig framsögur sem gáfu skýra mynd af umhverfi íslenskra fyrirtækja og framtaksfjárfestingasjóða og horfum í íslensku hagkerfi. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Tanja Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech fóru yfir sögu og rannsóknir þessara tveggja leiðandi fyrirtækja og fyrirtækin Bláa lónið, Orf líftækni og Kerecis voru kynnt með myndskeiðum.  

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Svana Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures, Steinþór Gunnarsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar KPMG og fjárfestarnir Hannes Smárason og Terry McGuire voru með framsögur.  Sjá upptöku af kynningum fundarins