Jump to content

Náttúruleg hráefni og fersk nýsköpun


Mikil gróska er í nýsköpun á sviði framleiðslu matvæla og ýmissa vara úr náttúrulegum hráefnum sem m.a. endurspeglaðist í fjölda umsókna í nýstofnaðan Matvælasjóð. Nokkrar hugmyndir að verkefnum á sviði ýmiss konar ræktunar, nýtingar náttúrulegra hráefna eða hringrásarhagkerfis komu inn á borð hjá Íslandsstofu frá erlendum fjárfestum.

Fyrirtæki feta sig inn á fjarmarkaði 

Aukinn áhugi er meðal íslenskra framleiðenda matvæla, drykkjarvara, fæðubótarefna og snyrtivara á að sækja inn á markað í Kína. Fyrirtækjum hefur fjölgað sem komin eru með umboðsmenn eða dreifingaraðila þar. Frá því sýningin China International Import Expo (CIIE) var fyrst haldin árið 2018 hafa íslensk fyrirtæki tekið þar þátt. Engin undantekning varð þar á 2020 þrátt fyrir heimsfaraldur. Kínverskir fulltrúar sex fyrirtækja kynntu íslenska vörur á sýningunni og stóðu vaktina ásamt fulltrúum sendiráðs Íslands í Beijing.

„Frá landnámi hefur æðardúni verið safnað úr hreiðrum við stendur Íslands. Áætlað er að um þremur tonnum sé safnað á Íslandi árlega og að það magn nemi um 80% alls æðardúns í heiminum.“

Náttúrulegur lúxus 

Frá landnámi hefur æðardúni verið safnað úr hreiðrum við stendur Íslands. Áætlað er að um þremur tonnum af æðardúni sé safnað á Íslandi árlega og að það magn nemi um 80% alls æðardúns í heiminum. Dúnninn hefur einstaka eiginleika, er náttúrulegt og sjálfbært hráefni og verðmæt útflutningsvara. Íslandsstofa og Æðarræktarfélag Íslands tóku á árinu saman höndum um að leita leiða til að bregðast við niðursveiflu í útflutningi og tryggja stöðugleika í sölu íslensks æðardúns.  Í undirbúningi er samstillt markaðsverkefni þar sem horft er til aukins samstarfs, nýrra markaða og hærra hlutfalls fullunninna útflutningsvara. 

Tækifærin liggja í lífvísindum 

Samstarf við stofnanir, samtök og klasa á sviði lífvísinda á Norðurlöndunum vegna fjárfestaviðburða í Evópu og Norður-Ameríku var styrkt enn frekar á árinu m.a. með heimsókn teymis frá Sweden Bio. Teymið stendur að viðburðunum Nordic Life Science Days og Nordic Life Science Invest. Eftir kynningar frá fjölbreyttum hópi vaxtarfyrirtækja og samtöl við vísisjóði og aðila úr stuðningsumhverfinu fóru Svíarnir heim með mynd af sterkum alþjóðlegum teymum og fannst sérstaklega áhugavert hvernig íslensk líftæknifyrirtæki nýta þekkingu og hráefni í sjávarútvegi til framleiðslu á verðmætum vörum.