Jump to content

Sjálfbærni er samnefnarinn

Íslandsstofa hefur þá framtíðarsýn að Ísland sé þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Verkefnið felst í því að þróa skýra mörkun fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð.

Til að styðja við framtíðarsýnina er ekki síður mikilvægt að allt starf Íslandsstofu byggi á gildum sjálfbærni og sé til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum, bæði innan og utan vinnustaðarins.

Um mitt ár 2020 ákvað Íslandsstofa að leggja í markvissa vegferð í þeim tilgangi að bæta rekstur og starfsemi, m.t.t. umhverfis- og loftslagsmála og setja fram stefnu, markmið og aðgerðir á þessu sviði.

Græn skref

Starfshópur var settur saman innan Íslandsstofu til að halda utan um vinnuna og verkefnið. Ákveðið var að styðjast við verkefnið Græn skref, sem Umhverfisstofnun starfrækir.  Með því móti fæst tvennt. Annars vegar aðgangur að heildstæðu kerfi, sem reynst hefur vel hjá ríkisstofnunum. Hins vegar aflast ný reynsla sem getur nýst öðrum fyrirtækjum og viðskiptavinum Íslandsstofu og þannig orðið hvati til almennrar notkunar verkefnisins. 

Hópurinn hefur unnið hörðum höndum að því að innleiða umhverfisvænar aðgerðir í starf Íslandsstofu líkt og Grænu skrefin segja til um. Þá hefur verið stuðst við utanaðkomandi ráðgjöf varðandi umhverfisstjórnunarkerfi, umhverfisuppgjör og mótun umhverfis- og loftslagsstefnu Íslandsstofu.

Markmið verkefnisins eru einna helst efla umhverfis- og loftslagsvænan rekstur og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi Íslandsstofu. Auk þess má nefna t.d.  

  • Að efla umhverfisvitund starfsmanna  
  • Að auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra  
  • Að draga úr rekstrarkostnaði  
  • Að aðgerðir Íslandsstofu séu sýnilegar og veiti öðrum innblástur til góðra verka 

Árangur verður metinn út frá eftirfarandi þáttum:

  • Virk umhverfis- og loftslagsstefna   
  • Árlegt umhverfisuppgjör  
  • Öll starfsemi kolefnisjöfnuð 
  • Reglubundin fræðsla fyrir starfsfólk og aukin upplýsingagjöf 

Vel hefur tekist til á stuttum tíma og hefur Íslandsstofa formlega lokið skrefi tvö í Grænu skrefunum. Drög að umhverfis- og loftslagsstefnu liggja fyrir ásamt fyrstu tölum úr umhverfisuppgjöri. Stefnt er að því að öllum skrefum verð lokið um mitt ár 2021, fram veginn í átt að loftslagsvænni framtíð.

Íslandsstofa er aðili að Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð sem er stærsta framtak heimsins á sviði samfélagsábyrgðar.