Jump to content

Opnar og lokaðar dyr


Hvað gera listamenn þegar ekki er hægt að sýna sköpun sína? Snemma árs lokuðust flestar leiðir listafólks til að deila sínum verkum með áhorfendum og þar með lokaðist að miklu leyti fyrir tekjustreymi. En þá tók við annars konar streymi. Bæði streymi hugmynda og sköpunar en einnig myndstreymi til að koma verkunum út til fólks sem var innilokað á heimilum um allan heim.

„Stærsti einstaki streymisviðburðurinn var Live from Reykjavík tónlistarhátíðin sem leysti Airwaves af hólmi.”

Íslandsstofa átti frábært samstarf við miðstöðvar lista og skapandi greina og sendiskrifstofur um margs konar viðburði á netinu, gerð myndbanda og annarra mála sem styðja við að gera listir og skapandi greinar betur í stakk búnar til að halda áfram að vaxa á alþjóðlegum vettvangi og verða alvöru útflutningsgrein. Stærsti einstaki streymisviðburðurinn var Live from Reykjavík tónlistarhátíðin sem leysti Iceland Airwaves af hólmi.

Iceland Naturally

Frá Live from Reykjavik 2020

Listir og skapandi greinar hafa á undanförnum tveimur áratugum verið mikilvægur þáttur í starfsemi Iceland Naturally og svo var einnig á árinu. Vegna COVID-19 varð að færa nánast alla viðburði á vefinn en öflugt kynningarstarf á listum og skapandi greinum var rekið allt árið á miðlum Iceland Naturally.
Nánar um Iceland Naturally

Lærdómur fyrir tónlistina 

Tónlistarfólk átti erfitt uppdráttar á árinu en stóran hluta ársins gat það ekki flutt sín verk á sviði og öllum tónleikaferðum erlendis var slegið á frest. Live from Reykjavík streymistónlistarhátíðin fór í loftið í nóvember og tóku flest stærstu nöfn íslenskrar tónlistar þátt. Framkvæmdin var í höndum Senu Live í samstarfi við fjölmarga aðila og studdi markaðsverkefnið Saman í sókn myndarlega við hátíðina. Mikil þekking og reynsla safnaðist og um 12.000 erlendir áhorfendur keyptu aðgang auk þess sem um 80.000 íslenskir áhorfendur nutu streymisins á RÚV. Má gera ráð fyrir því að streymi frá tónleikum eigi eftir að vera á boðstólunum þótt tónleikahald með áhorfendum í sal nái sér vel á strik.

Hönnun heldur sínu striki 

Mynd: HönnunarMars

Hönnuðir eru þjálfaðir í að bregðast við nýjum aðstæðum og sjá tækifærin þótt aðstæður breytist. Ánægjulegt var að sjá að stærsta hátíð hönnunar á Íslandi, Hönnunarmars, fór fram þótt mars hafi breyst í júní vegna samkomutakmarkana. Dagskráin var aðlöguð aðstæðum og um 80 sýningar voru í boði fyrir gesti. Að auki studdi Íslandsstofa við Studio 2020 sem var tilraunavettvangur til að miðla efni hátíðarinnar á stafrænu formi. Enn má segja að töluverður lærdómur hafi fengist af slíkum tilraunum og má gera ráð fyrir áframhaldandi öflugri miðlun með streymi og nýjum miðlum.

Bókmenntirnar streyma 

Eins og aðrar listgreinar stukku bókmenntir á streymis- og myndbandavagninn. Á árinu voru tvö metnaðarfull myndbönd unnin um íslenska rithöfunda, annað á ensku en hitt á frönsku þar sem tungumálakunnátta íslenskra rithöfunda fær að njóta sín og þeir ræða verk sín án aðkomu þýðenda. Í samvinnu Íslandsstofu við sendiráð Íslands í Berlín og Miðstöð íslenskra bókmennta var haldinn streymisviðburður þar sem Thomas Böhm sat í Berlín og ræddi við átta íslenska rithöfunda sem sátu í Gunnarshúsi en allir hafa þeir gefið út verk sín á þýsku. Einnig ræddi Thomas við Óttar Proppé um jólabókaflóðið og einstaka stemmingu í bókabúðum fyrir jólin.

Film in Iceland

Við tökur á myndinni Star Strek

Markmið verkefnisins Film in Iceland er að kynna Ísland fyrir erlendum kvikmyndaframleiðendum sem ákjósanlegan stað fyrir kvikmyndatökur.

Covid-19 hafði minni áhrif á Íslandi en víða um heim þegar horft er til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar á árinu 2020 en yfir 30 erlend kvikmyndaverkefni voru tekin upp á árinu, þrátt fyrir heimsfaraldur.
Lesa meira