Vitund um Ísland viðhaldið
Miklar áskoranir mættu ferðaþjónustunni um allan heim á liðnu ári vegna heimsfaraldursins og ferðatakmarkana en í áskorunum liggja líka tækifæri og lögðust allir á eitt við að nýta þau. Það eru stöðugar markaðsgerðir í gangi árið um kring til að kynna áfangastaðinn Ísland í gegnum almannatengsl, markaðsherferðir, vinnustofur, sýningar, vefsíður, samfélagsmiðla, tengslastarf o.fl.
„Markaðsaðgerðir snerust einkum um að viðhalda áhuga á áfangastaðnum Íslandi þegar ferðalög lágu niðri megnið af árinu.“
Unnið er í nánu samstarfi við aðila á borð við markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu, ISAVIA og fleiri hagaðila. Á árinu var megináhersla lögð á að viðhalda áhuga fólks á áfangastaðnum og hlúa að viðskiptatengslum erlendis ásamt því að halda góðu sambandi og upplýsingaflæði til samstarfsaðila hér innanlands.
Ísland – saman í sókn
Íslandsstofu var falin framkvæmd markaðsverkefnisins Ísland - saman í sókn sem er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19 og snýr að kynningar- og markaðsstarfi erlendis á árunum 2020-2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs á íslenska ferðaþjónustu. Þegar markaðsverkefnið fór af stað var gert ráð fyrir styttri tímaramma en síðar raungerðist vegna heimsfaraldursins og aðlaga þurfti aðgerðir að litlum fyrirsjáanleika og aðstæðum sem breyttust ört.
Í júní fór landkynningamyndbandið Enough í birtingu, í júlí var herferðin Let it Out sett í gang og Joyscroll herferðin fór af stað í desember. Þessar aðgerðir hafa það sameiginlega markmið að viðhalda áhuga á Íslandi sem áfangastað og stuðla að því að landið sé ferðalöngum ofarlega í huga þegar þeir bóka sína næstu ferð.
Mikil umfjöllun fjölmiðla um Ísland
Íslandsstofa vinnur náið með almannatengslastofum á lykilmörkuðum við að skapa umfjallanir um áfangastaðinn. Heimsfaraldurinn gerði það að verkum að samskipti Íslandsstofu við erlenda fjölmiðla voru með óhefðbundnum hætti og ýmsar áskoranir við að koma Íslandi á framfæri þar sem ekki var hægt að skipuleggja fjölmiðlaferðir til landsins og fjölmiðlar voru tregari til að birta ferðatengdar fréttir meðan ferðalög voru í lamasessi.
Þrátt fyrir það komu yfir 1800 umfjallanir um Ísland til vegna vinnu almannatengslastofanna. Umfjallanirnar náðu til um 750 milljón neytenda á helstu mörkuðum og er virði umfjallanna gróflega metið á um 5,5 milljarða ef miðað er við meðaltalsverð við kostnað á birtingu. Ísland var töluvert í kastljósinu fyrir góðan árangur í baráttunni gegn kórónuveirunni og vann Íslandsstofa náið með utanríkisráðuneytinu við að svara fyrirspurnum áhugasamra fjölmiðla því tengt.
Viðskiptatengsl
Í upphafi árs tók Íslandsstofa þátt í fagsýningum með íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og stóð fyrir vinnustofum erlendis. Eftir að heimsfaraldurinn skall á færðust allir viðburðir á rafrænt form. Töluvert tengslastarf átti sér stað á lykilmörkuðum, bæði vinnustofur á vegum Íslandsstofu og þátttaka á stærstu ferðasýningunum með fyrirtækjum. Íslandsstofa stóð fyrir sínum fyrsta stóra ferðaþjónustuviðburði á netinu síðastliðið haust sem var Vestnorden. Sýningin er unnin í samstarfi Íslands, Grænlands og Færeyja. Sýningin er haldin hér á landi annað hvert ár undir merkjum NATA (North Atlantic Tourism Association). Viðburðurinn gekk vonum framar og áttu kaupendur og seljendur samtals 1600 fundi.
Uppbygging heldur áfram
Þrátt fyrir heimsfaraldur héldu uppbyggingarverkefni í ferðaþjónustu með aðkomu erlendra fjárfesta sínu striki. Framkvæmdir héldu áfram af fullum krafti við Sky Lagoon á Kársnesi í Kópavogi, Edition hótelið við Hörpu í Reykjavík og Greenhouse hotel í Hveragerði. Ákvörðun var tekin um að ráðast í uppbyggingu á Höfði Lodge við Grenivík og verkefni um gistiþjónustu á Heyklif við Stöðvarfjörð var þróað áfram, svo dæmi séu tekin.
Meet in Reykjavík
Ráðstefnuborgin Reykjavík hefur það hlutverk að kynna og markaðssetja Reykjavík og Ísland sem áfangastað fyrir fundi, ráðstefnur, hvataferðir og viðburði (MICE). Um áramótin 2020/21 tók Íslandsstofa formlega við rekstri verkefnisins og bættis þar með í hóp kjölfestuaðila þess. Samningur þess efnis var samþykktur á aukaaðalfundi Meet in Reykjavík og flutti starfsemin í höfuðstöðvar Íslandsstofu 1. júlí.