Erlendar fjárfestingar
Ný útflutningsstefna fyrir Ísland með áherslu á sjálfbærni og skilgreind áherslusvið, Nýsköpunarstefna, Orkustefna og Vísinda- og tæknistefna eru allar til marks um skýra framtíðarsýn fyrir íslenskt atvinnulíf og þar með leiðarljós fyrir Íslandsstofu í sínu starfi. Sumarið 2020 varð svo sú breyting að rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga í atvinnulífi rann út og boðað að í staðinn væri áhersla lögð á almennt samkeppnishæft viðskiptaumhverfi og skilvirkan stuðning við nýsköpun og þróun.
Í ljósi alls þessa hófu Íslandsstofa og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samstarf í september 2020 um bestu leiðir til að innleiða framangreinda stefnumótun hvað varðar fjárfestingar í atvinnulífinu. Í kjölfarið átti Íslandsstofa samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, öll atvinnuþróunarfélög landshlutanna og Samtök atvinnulífsins um leiðir til að vinna markvissar að eflingu fjárfestinga. Mikill áhugi var á verkefninu og vilji til þátttöku.
Þetta verkefni hefur síðar verið formgert með samstarfssamningi Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem fékk vinnuheitið Græni dregillinn og tengist einnig nýrra verkefni um eflingu hringrásarhagkerfis og grænna iðngarða á Íslandi. Að Græna dreglinum koma öll lykilráðuneyti og stofnanir sem tengjast framgangi fjárfestingaverkefna hér á landi, frá fyrstu óskum um upplýsingar að rekstri.
Í lok nóvember fór fram netráðstefnan How do I invest in Iceland.
Þrátt fyrir heimsfaraldur gekk íslenskum fyrirtækjum vel að sækja sér erlenda fjármögnun, ekki síst fyrirtæki í hugviti, nýsköpun og tækni. Nokkur erlend fjárfestingaverkefni voru í virkri skoðun, meðal annars á sviði matvæla, gagnavera, iðnaðar og þaravinnslu.