Jump to content

Áherslur í útflutningi

Sex stefnumarkandi áherslur í útflutningi eru ríkjandi hjá Íslandsstofu sem spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi, allt frá orku og grænum lausnum til lista og skapandi greina.

Íslandsstofa hefur einnig það hlutverk að þjóna erlendum fjárfestum sem áhuga hafa á Íslandi, þar sem markmiðið er m.a. að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.

Hér að neðan má fræðast nánar um starfsemi Íslandsstofu á árinu 2020.

Orka og grænar lausnir

Orka úr endurnýjanlegum auðlindum er vaxandi verðmæti sem hefur m.a. laðað hingað til lands nýja erlenda fjárfestingu auk þess sem þekking og reynsla á þessu sviði skapar útflutningsverðmæti. Árið 2020 var mikið mót­un­ar­starf unnið á sviði orku og grænna lausna. Ákveðið var meðal ann­ars að áhersl­an Orka og grænar lausn­ir muni erlendis not­ast við vörumerk­ið Green ­By Iceland.

Hugvit, nýsköpun og tækni

Íslandsstofa fór nýjar leiðir á árinu við að koma íslenskum fyrirtækjum á sviði hugvits, nýsköpunar og þekkingar á framfæri á erlendri grundu. Höfuð áhersla var lögð á að veita íslenskum vaxtarfyrirtækjum brautargengi. Íslenskri líf­tækni var komið á fram­færi við sér­hæfða fjár­festa í Banda­ríkj­un­um og íslensku við­skiptaum­hverfi var komið á fram­færi við er­lenda fjár­festa sem og íslenskum fjár­tæknifyr­ir­tækj­um.

Listir og skapandi greinar

Snemma árs lok­uð­ust flestar leiðir lista­fólks til að deila sínum verkum með áhorf­endum og þar með lok­að­ist að miklu leyt­i ­fyrir tekju­streymi. En þá tók við ann­ars konar streymi. Bæði streymi hug­mynda og sköp­unar en einnig mynd­streymi til að koma verk­unum út til fólks sem var inni­lokað á heim­ilum um allan heim. 

Ferðaþjónusta

Það voru miklar áskoranir sem mættu ferðaþjónustunni á árinu 2020 en í áskorunum liggja líka tækifæri og lögðust allir á eitt við að nýta þau. Á árinu var megin­áhersla lögð á að við­halda áhuga fólks á áfanga­staðnum og hlúa að við­skipta­tengslum erlendis ásamt því að halda góðu sam­bandi og upp­lýs­ingaflæði til sam­starfs­að­ila hér innanlands.

Sjávarútvegur

Íslands­stofa stendur fyrir margskonar mark­aðs- og kynn­ing­ar­starfi á íslenskum sjáv­ar­af­urðum og sjáv­ar­út­vegs­tækni. Aðilar innan sjávarútvegsins hafa snúið bökum saman til að auka slagkraft í kynningu íslenskra sjávarafurða undir merkjum Seafood from Iceland. Til­gangur mark­aðs­starfs undir merkjum SeaTech by Ice­land er að auka vit­und um Ísland sem upp­runa­lands hátækni­lausna í sjáv­ar­út­vegi.

Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir

Árið ein­kennd­ist af kortlagn­ingu við­skipta­vina og hug­mynda­vinnu um þjón­ustu­fram­boð. Aukinn áhugi er meðal íslenskra framleiðenda að sækja inn á markað í Kína og var Ísland með viðveru á China Internati­onal Import Expo. Íslandsstofa og Æðarræktarfélag Íslands tóku á árinu saman höndum um að leita leiða til að bregðast við niðursveiflu í útflutningi á æðardúni. Þá var samstarf Norðurlandanna um kynningu á lífvísindum styrkt enn frekar.

Erlendar fjárfestingar

Komið var til móts við breyttar aðstæður með því að efna til viðburða á vefnum og má þar helst nefna How do I Invest in Iceland, sem hafði það markmið að auka vitund erlendra fjárfesta og fyrirtækja um tækifæri í fjárfestingum á Íslandi. Íslandsstofa þjónaði áhugasömum fjárfestum að vanda með upplýsingagjöf og veittur var stuðningur við nokkur fjárfestingarverkefni í ferðaþjónustu. Þá voru nokkur erlend fjárfestingaverkefni í virkri skoðun á ýmsum sviðum.