Áherslur í útflutningi
Sex stefnumarkandi áherslur í útflutningi eru ríkjandi hjá Íslandsstofu sem spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi, allt frá orku og grænum lausnum til lista og skapandi greina.
Íslandsstofa hefur einnig það hlutverk að þjóna erlendum fjárfestum sem áhuga hafa á Íslandi, þar sem markmiðið er m.a. að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.
Hér að neðan má fræðast nánar um starfsemi Íslandsstofu á árinu 2020.
Orka og grænar lausnir
Orka úr endurnýjanlegum auðlindum er vaxandi verðmæti sem hefur m.a. laðað hingað til lands nýja erlenda fjárfestingu auk þess sem þekking og reynsla á þessu sviði skapar útflutningsverðmæti. Árið 2020 var mikið mótunarstarf unnið á sviði orku og grænna lausna. Ákveðið var meðal annars að áherslan Orka og grænar lausnir muni erlendis notast við vörumerkið Green By Iceland.
Hugvit, nýsköpun og tækni
Íslandsstofa fór nýjar leiðir á árinu við að koma íslenskum fyrirtækjum á sviði hugvits, nýsköpunar og þekkingar á framfæri á erlendri grundu. Höfuð áhersla var lögð á að veita íslenskum vaxtarfyrirtækjum brautargengi. Íslenskri líftækni var komið á framfæri við sérhæfða fjárfesta í Bandaríkjunum og íslensku viðskiptaumhverfi var komið á framfæri við erlenda fjárfesta sem og íslenskum fjártæknifyrirtækjum.
Listir og skapandi greinar
Snemma árs lokuðust flestar leiðir listafólks til að deila sínum verkum með áhorfendum og þar með lokaðist að miklu leyti fyrir tekjustreymi. En þá tók við annars konar streymi. Bæði streymi hugmynda og sköpunar en einnig myndstreymi til að koma verkunum út til fólks sem var innilokað á heimilum um allan heim.
Ferðaþjónusta
Það voru miklar áskoranir sem mættu ferðaþjónustunni á árinu 2020 en í áskorunum liggja líka tækifæri og lögðust allir á eitt við að nýta þau. Á árinu var megináhersla lögð á að viðhalda áhuga fólks á áfangastaðnum og hlúa að viðskiptatengslum erlendis ásamt því að halda góðu sambandi og upplýsingaflæði til samstarfsaðila hér innanlands.
Sjávarútvegur
Íslandsstofa stendur fyrir margskonar markaðs- og kynningarstarfi á íslenskum sjávarafurðum og sjávarútvegstækni. Aðilar innan sjávarútvegsins hafa snúið bökum saman til að auka slagkraft í kynningu íslenskra sjávarafurða undir merkjum Seafood from Iceland. Tilgangur markaðsstarfs undir merkjum SeaTech by Iceland er að auka vitund um Ísland sem upprunalands hátæknilausna í sjávarútvegi.
Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir
Árið einkenndist af kortlagningu viðskiptavina og hugmyndavinnu um þjónustuframboð. Aukinn áhugi er meðal íslenskra framleiðenda að sækja inn á markað í Kína og var Ísland með viðveru á China International Import Expo. Íslandsstofa og Æðarræktarfélag Íslands tóku á árinu saman höndum um að leita leiða til að bregðast við niðursveiflu í útflutningi á æðardúni. Þá var samstarf Norðurlandanna um kynningu á lífvísindum styrkt enn frekar.
Erlendar fjárfestingar
Komið var til móts við breyttar aðstæður með því að efna til viðburða á vefnum og má þar helst nefna How do I Invest in Iceland, sem hafði það markmið að auka vitund erlendra fjárfesta og fyrirtækja um tækifæri í fjárfestingum á Íslandi. Íslandsstofa þjónaði áhugasömum fjárfestum að vanda með upplýsingagjöf og veittur var stuðningur við nokkur fjárfestingarverkefni í ferðaþjónustu. Þá voru nokkur erlend fjárfestingaverkefni í virkri skoðun á ýmsum sviðum.