Ársskýrsla
Íslandsstofu
2020
Beggja skauta byr
Útflutningstekjur Íslands drógust saman um tæplega 30% á seinasta ári og er sá samdráttur að langmestu leyti vegna þess að flug og ferðaþjónusta lagðist í hýði stærstan hluta ársins. Það er hins vegar afar ánægjulegt að sjá þá aukningu sem hefur orðið í útflutningstekjum af hugverkaiðnaði en þær námu 158 milljörðum króna í fyrra. Hér er orðin til ný stoð í gjaldeyristekjum sem gera má ráð fyrir að haldi áfram að vaxa á næstu árum og áratugum.
Starfsemi
Skipulag Íslandsstofu miðar að því að styðja við innleiðingu á Útflutningsstefnu Íslands sem mörkuð var á árinu 2019. Eitt kjarnasvið, Útflutningur og fjárfestingar, er stutt af þremur stoðsviðum; Fjármálum og rekstri, Markaðssamskiptum og Viðskiptaþróun. Starfið hverfist um sex stefnumarkandi áherslur sem eru grunnstoðir í allri starfseminni.
Markaðsverkefni
Íslandsstofa er framkvæmdaraðili að ýmsum samstarfsverkefnum sem snúa að markaðssetningu á íslenskri vöru og þjónustu.
Stærsta þeirra á meðal er Ísland - Saman í sókn sem er markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkefnið Seafood from Iceland veitir aukinn slagkraft í kynningu íslenskra sjávarafurða, Horses of Iceland eykur vitund um kosti íslenska hestsins og vörumerkið Green by Iceland stuðlar að því að að Ísland verði þekkt fyrir grænar lausnir á erlendum vettvangi.
Umhverfi og samfélag
Íslandsstofa er þátttakandi í Grænu skrefunum, verkefni fyrir stofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Vel hefur tekist til á stuttum tíma og hefur Íslandsstofa formlega lokið skrefi tvö í Grænu skrefunum. Stefnt er að því að öllum skrefum verð lokið um mitt ár 2021, fram veginn í átt að loftslagsvænni framtíð.
Einnig er Íslandsstofa aðili að Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð sem er stærsta framtak heimsins á sviði samfélagsábyrgðar.
Frú Eliza Reid og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra við formlega opnun Heimstorgsins.
Heimstorg Íslandsstofu
Haustið 2020 var skrifað undir samkomulag um Þjónustuborð Íslandsstofu milli Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins. Árið 2021 fékk verkefnið nefnið Heimstorg Íslandsstofu og var það formlega opnað í byrjun mars 2021. Heimstorgið er vettvangur þar sem atvinnulíf og stjórnvöld mætast og fyrirtæki geta sótt upplýsingar um mögulegan stuðning við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar þar sem Ísland veitir fjárframlög. Þangað verður einnig hægt að sækja sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um möguleika á að hrinda hugmyndum í framkvæmd.
Frá afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands 2020 í Hörpu. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og handhafa verðlaunanna, og Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu.
Framúrskarandi árangur
Íslandsstofa sér um framkvæmd Útflutningsverðlauna forseta Íslands sem veitt eru í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar á útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun. Þá er Íslandsstofa aðili að Nýsköpunarverðlaunum Íslands, sem vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og rannsókna og þekkingaröflunar. Fyrirtækið Controlant hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2020, en lausnir félagsins eru mikilvægur hlekkur í dreifingu bóluefna við COVID-19.