Jump to content

Ísland - saman í sókn

Íslandsstofu var falin framkvæmd markaðsverkefnisins Ísland - saman í sókn sem er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19 og snýr að kynningar- og markaðsstarfi erlendis á árunum 2020-2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs á íslenska ferðaþjónustu.

Markaðsaðgerðir snerust einkum um að viðhalda áhuga á áfangastaðnum Íslandi þegar ferðalög lágu niðri megnið af árinu.

Þegar markaðsverkefnið fór af stað var gert ráð fyrir styttri tímaramma en síðar raungerðist vegna heimsfaraldursins og aðlaga þurfti aðgerðir að litlum fyrirsjáanleika og aðstæðum sem breyttust ört.

Markaðsgreining var framkvæmd til að meta stöðu vegna Covid á lykilmörkuðum. Kynningarfundir og vinnustofur voru haldnar reglulega með hagaðilum í markaðshópi þar sem farið var yfir áherslur í verkefninu og rætt um áskoranir og tækifæri.

Meginmarkaðssvæði verkefnisins eru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Norðurlöndin. Mikilvæg markaðssvæði sem einnig er horft til eru Kanada, Belgía, Holland, Írland, Frakkland, Sviss, Spánn, Ítalía og Kína. 

Markaðsaðgerðir á árinu

Í júní var landkynningarmyndbandið Enough sett í birtingu í Þýskalandi og Danmörku þar sem aðstæður höfðu skapast fyrir ferðalög þaðan til Íslands. Í myndbandinu var farið yfir helstu kosti Íslands sem áfangastaðar, fallega náttúru, víðerni, frábæra veitingastaði og fjölbreytta afþreyingarmöguleika. Eftir erfiða tíð var fólk hvatt til að ferðast til Íslands þar sem það gæti endurnært sál og líkama.

Í júlí var herferðin Let It Out sett í gang þar sem tilvonandi ferðamönnum var boðið að losa um Covid-tengda streitu með því að taka upp öskur gegnum síma eða tölvu og fylgjast með því hljóma í íslenskri náttúru gegnum vefmyndavél. Boðið var upp á að fylgjast með öskrinu hljóma í ólíkum landshlutum þar sem sjö hátölurum var komið fyrir utan alfaraleiðar og fengu notendur svo myndbandsupptöku af öskrinu sínu.

Má segja að herferðin hafi slegið í gegn hjá erlendum áhorfendum og fjölmiðlum.

Tilvonandi ferðamönnum bauðst að losa um streitu með því að taka upp öskur í íslenskri náttúru. - Hér má sjá samantekt á umfjöllun um herferðina.

Yfir 60 þúsund manns tóku þátt og alls voru birtar um 850 umfjallanir í erlendum miðlum. Náði samanlögð dreifing þeirra til um 2,6 milljarða áhorfenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá sýndu rannsóknir að ferðaáhugi gagnvart Íslandi jókst að meðaltali um 49% á markaðssvæðum herferðarinnar. Eitt virtasta auglýsingafagtímarit í Bandaríkjunum, Contagious Magazine, útnefndi herferðina sem eina af 25 bestu herferðum ársins. Herferðin fékk einnig verðlaun hjá bandaríska fagmiðlinum Digiday sem verðlaunar árlega markaðsstarf fyrirtækja fyrir hugmyndaauðgi og árangur.

Í desember var herferðin Joyscroll sett í gang þar sem fólk var hvatt til þess að skruna sér til ánægju á vefnum www.joyscroll.com. Þar var komið fyrir 22,7 metrum af gleðigefandi efni frá Íslandi sem mótvægi gegn stanslausum straumi neikvæðra frétta. Fékk herferðin mjög jákvæð viðbrögð.

Vinnustofur með stjórn og markaðshóp voru haldnar í desember til að safna upplýsingum um hver eigi að vera meginmarkmið markaðssetningar þegar ferðaáhugi eykst, hverjar eru megináskoranirnar fyrir markhópinn að velja Ísland sem áfangastað á þeim tímapunkti og hvað muni kveikja áhugann á að velja Ísland sem áfangastað og fylgir okkar markmiðum.